Eins og fjallað hefur verið um kom upp hópsmit í Þorlákshöfn í byrjun þessarar viku. Snemma lá fyrir að smitið næði meðal annars inn í grunnskólann. Sveitarfélagið Ölfus brást hratt við og beindi því til bæjarbúa að skipta niður í fyrsta gír og vera í hægagangi út vikuna. Aðdáun hefur vakið hversu vel bæjarbúar brugðust við og standa vonir nú til að samstaðan hafi komið í veg fyrir frekari útbreiðslu.
Eins og allir vita er Þorlákshöfn körfuboltabær. Lið Þórs er eitt af þeim allra sterkustu hér á landi og að mörgu leyti slær hjarta bæjarins í takt við liðið. Til stóð að strákarnir okkar myndu mæta Val í kvöld en vegna óvissu með smit var leiknum frestað til föstudags.
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú komist að samkomulagi um að sveitarfélagið kaupi alla miða á leikinn og bjóði þess í stað öllum aðdáendum liðsins að fylgjast með honum í gegnum beina útsendingu á Youtube.
Með þessu vill sveitarfélagið sýna bæjarbúum þakklæti fyrir samstöðuna og liðinu stuðning í baráttunni.
Leikur liðanna hefst kl. 18:15 á morgun föstudag og verður í beinni útsendingu á Youtuberás Þórs Þorlákshafnar.