Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er að auka jafnvægi kynjanna í efstu stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi og efla íslenskt viðskiptalíf til að vera fyrirmynd jafnréttis á alþjóðavísu. Ísland hefur staðið sig vel þegar kemur að kynjajafnrétti samanborið við önnur lönd heimsins en betur má ef duga skal. Konur eru um 67% útskrifaðra háskólanema en einungis 11% forstjóra. Tölur á íslenskum vinnumarkaði sýna að eftir því sem fyrirtækin eru stærri fækkar konum í stjórnunarstöðum.
Sveitarfélagið Ölfus er með virka jafnréttisstefnu sem er stöðugt í endurskoðun. Bæjarfélagið hefur hlotið jafnlaunavottun og leggur mikla áherslu á fjölbreytileika í víðum skilningi í sínu stjórnendateymi og líka innan starfsmannahópsins.
Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, forsætisráðuneytisins, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Morgunblaðsins. Tilgangur verkefnisins er:
- Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60
- Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir
- Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar
- Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis
- Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður
Verkefninu var komið á fót á árinu 2017 og hefur náð að festa sig í sessi sem er mikilvægur þáttur í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum.