Framundan er fjölbreytt dagskrá í Þorlákshöfn og það jafnvel þótt Hafnardagar hafi verið fluttir og séu ekki fyrr en í ágúst. En Sjómannadagurinn verður ekki af okkur tekinn og margir koma að því að búa til skemmtilega viðburði í aðrdraganda hátíðar sjómanna.
Framundan er fjölbreytt dagskrá í Þorlákshöfn og það jafnvel þótt Hafnardagar séu ekki fyrr en í ágúst. En Sjómannadagurinn verður ekki af okkur tekinn og margir koma að því að búa til skemmtilega viðburði í aðrdraganda hátíðar sjómanna.
Fimmtudaginn 2. júní opnar ný sýning í Gallerí undir stiganum, á Bæjarbókasafni Ölfuss. Það er Árný Leifsdótttir sem á stærstan þátt í að búa til sýningu þar sem dregnir eru fram persónur og leikendur auk viðburða sem mörkuðu upphaf þorpsmyndunar í Þorlákshöfn. Sýningin ber yfirskriftina "Þorp verður til" og á henni má lesa viðtöl við frumbyggja, þætti úr bók Björns Pálssonar um Sögu Þorlákshafnar, ljósmyndir og skoða muni byggðasafnsins sem tengjast frumbyggjaárunum í Þorlákshöfn. Af tilefni sýningarinnar verður bók Björns Pálssonar seld með sérstökum afslætti í sumar eða á kr. 7.500.
Sýningin opnar kl. 18:00 og verður boðið upp á kaffi og konfekt af tilefni opnunar.
Síðar sama dag eða kl. 20:00, heldur tónlistarhópurinn Tónar og Trix tónleika í Versölum, menningarsal ráðhússins. Tónleikar hópsins eru alltaf frábær upplifun og allir ganga út á eftir með bros á vör og hlýju í hjarta.
Á föstudeginum, 3. júní, opnar Bryndís Víglundsdóttir ljósmyndasýningu við Selvogsbrautina. Börn úr leikskólanum Bergheimum mæta kl. 10:30 og opna sýninguna með því að syngja nokkur lög.
Á laugardaginn 4. júní kl. 11:00 hefst dagskráin síðan með Kvennahlaupi ÍSÍ frá íþróttahúsinu og er það Frjálsíþróttadeild Þórs sem heldur utanum skipulag hlaupsins.
Sama dag kl. 13:00 býður Útvegsmannafélagið upp á skemmtisiglingu frá Svartaskersbryggju og í beinu framhaldi verður boðið upp á hefðbundna dagskrá við bryggju m.a. kappróður, koddaslag, kararóður, kassaklifur, hoppukastala, andlitsmálun og fleira. Knattspyrnufélagið Ægir efnir svo til sjómannaskemmtunar í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss um kvöldið.
Á sunnudeginum verður Sjómannadagsmessa í Þorlákskirkju kl. 13:30 og Slysavarnarfélagið Mannbjörg verður með sitt árlega kaffihlaðborð í ráðhúsinu sem hefst kl. 15:00.
Íbúar og nærsveitungar eru hvattir til að njóta helgarinnar í sjávarplássinu Þorlákshöfn, þar sem einnig er að finna gott tjaldstæði og glæsilega íþrótta- og sundaðstöðu.