Á þjóðhátíðardaginn verður auk hefðbundinnar hátíðardagskrár, afhjúpun skiltis við víkingaskip Erlings Ævarrs á útsýnisstað og vígsla á kvenfélagstorgi í skrúðgarðinum. Einnig verður þetta í fyrsta sinn sem skrúðgarðurinn verður opnaður eftir að hafa verið endurhannaður og fegraður.
Það verður mikið um hátíðarstundir í Þorlákshöfn næstkomandi föstudag. Auk þess að haldið verður upp á þjóðhátíðardaginn, verða tvær athafnir sem tengjast nýjungum í umhverfinu okkar. Klukkan 11:00 um morguninn verður nýtt skilti afhjúpað við víkingaskip sem Erlingur Ævarr Jónsson á heiðurinn af og staðsett er við útsýninsstað á varnargarði. Skipið minnir á strand Auðar Djúpúðgu á Hafnarskeiðinu eða Vikraskeiði.
Síðar um daginn fer fram hefðbundin hátíðardagskrá með leikjum fyrir börnin, skrúðgöngu, hátíðarræðum og ávarpi fjallkonunnar, en fjallkonan mun að þessu sinni klæðast nýjum búningi sem Jenný Dagbjört Erlingsdóttir hefur saumað.
Hátíðardagskráin fer fram í skrúðgarðinum, en þar verður einnig formleg vígsla á þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skrúðgarðinum síðustu ár. Ákveðið var á afmælisári Kvenfélags Þorlákshafnar árið 2014, að heiðra Kvenfélagið með því að gera skrúðgarðinn að þeim fallega stað sem kvenfélagskonur dreymdi um, en það er einmitt Kvenfélaginu að þakka að í Þorlákshöfn er skrúðgarður. Hlín Sverrisdóttir, landslagsarkitekt og dóttir Álfhildar Steinbjörnsdóttur sem var ein af þeim kvenfélagskonum sem unnu að því að búa til Skrúðgarðinn, var fengin til að hanna breytingarnar.
Til minningar um frumkvöðlastarf kvenfélagskvenna hefur minningarsteini verið komið fyrir á svonefndu Kvenfélagstorgi en bæði verður vígt á hátíðardagskránni sem verður í skrúðgarðinum og hefst klukkan 14:00.