Skammdegishátíðin Þollóween verður haldin dagana 26.-31. október og er það í þriðja sinn sem Þorlákshafnarbúar fagna myrkrinu, klæða sig upp og skemmta sér hræðilega í heila viku. Það var áskorun að koma hátíðinni saman í ár enda ganga hátíðir almennt út á það að fólk komi saman til að skemmta sér sem er þvert á það sem leyfilegt er á þessum fordæmalausum tímum. Þollóween nefndin ákvað að láta það ekki stoppa sig heldur leita leiða til að búa til vettvang og tilefni fyrir fjölskyldur að eiga skelfilega góðar stundir saman, án þess að vera mikið að hitta aðra samt. Sem fyrr er sú nefnd skipuð konum í þorpinu sem eiga það sameiginlegt að vera léttgeggjaðar og hafa gaman af allskonar veseni. Foreldrafélögin í leikskólanum Bergheimum og Grunnskólanum í Þorlákshöfn koma líka að verkefninu.
Hér má nálgast dagskrána í PDF skjali sem hægt er að prenta út, en dagskráin verður ekki borin út í hús að þessu sinni. Aftan á dagskránni er myndabingó sem tilheyrir Draugagarðinum sem opnar miðvikudaginn 28. október kl. 17 í Skrúðgarðinum en Draugagarðurinn verður opinn fram á laugardagskvöld. Þar geta fjölskyldur komið saman og tekið þátt í ýmsum leikjum á eigin forsendum.
Fjölmargir viðburðir eru á dagskrá svo sem beinar útsendingar, bílabíó, grikk eða gott og ýmislegt fleira og hvetjum við íbúa til að fylgjast vel með dagskránni. Hátíðin er með Facebooksíðu https://www.facebook.com/tholloween og má þar sjá margar skemmtilegar hugmyndir að föndri, bakstri, búningum og fleiru.