Þemadagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
Í þessari viku standa yfir þemadagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
Kæru íbúar Ölfuss
Í Grunnskólanum í Þorlákshöfn mun vikan 27. til 30. apríl verða með óhefðbundnu sniði þar sem við munum breyta innviðum skólans í samfélag sem heitir Þorpið. Í Þorpinu kennir ýmissa grasa og er hægt að fá margskonar vöru og þjónustu á borð við konfekt, kryddjurtir, leikföng, hannyrðir, glermuni, skartgripi o.fl. Þar verður líka glæsilegt framboð afþreyingar og má þar nefna götuleikhúsið auk þess að fólk getur slakað á og fengið sér kaffi og með því á kaffihúsi bæjarins. Það eru nemendur Grunnskólans í Þorlákshöfn sem munu byggja upp þetta samfélag, taka þátt í vöruþróun, framleiðslu og sölu afurða sem til verða. Fyrir þá vinnu fá starfsmenn greitt í gjaldmiðli Þorpsins sem heitir Þollari og verður hann í öruggu eftirliti bankastarfsmanna Þorpsins.
Opinn dagur Þorpsins
Fimmtudaginn 30. apríl opnum við samfélagið fyrir öllum þeim sem vilja koma og bjóðum foreldra og aðra aðstandendur sérstaklega velkomna. Klukkan 11.00-13.00 opna starfsmenn bæjarins verslanirnar sínar og listamenn verða með viðburði og afurðir sínar til sýnis. Þá geta gestir Þorpsins farið í bankaútibúið og skipt íslenskum krónum í Þollara, gjaldmiðil samfélagsins, og keypt afurðir, séð sýningar og fengið sér kræsingar á kaffihúsinu. Forsala Þollaranna (gjaldmiðils Þorpsins) mun vera á miðvikudaginn á bókasafni skólans frá kl.10-13. Bankinn opnar svo stundvíslega kl. 8:00 að morgni þess 30.
Allur ágóði verkefnisins rennur í þemadagasjóð sem nýttur verður næst þegar verkefnið verður tekið upp.
Youtube-rás.
Starfsmenn Fjölmiðlasamsteypunnar munu starfrækja Youtube-rás þessa daga. Slóðin er
https://www.youtube.com/watch?v=R98qSpHJufg
Vonumst til að sjá sem flesta
Þorpið