Uppgræðslusjóður Ölfuss veitir 3 milljónum kr. til landbótaverkefna í sveitarfélaginu

Uppgræðslusjóður Ölfuss veitir 3 milljónum kr. til landbótaverkefna í sveitarfélaginu.

 

Stjórn Uppgræðslusjóðs Ölfuss hefur samþykkt að úthluta 3 milljónum króna til margvíslegra landbótarverkefna í sveitarfélaginu, en verkefnin sem styrk hljóta eru margvísleg. Styrkþegum hefur verið tilkynnt um styrkveitinguna, en styrkirnir verða greiddir úr sjóðnum í samræmi við reglur sjóðsins þar um.

 

Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir  úr Uppgræðslusjóði Ölfuss. Sjóðurinn er eign Sveitarfélagsins Ölfuss og stofnaður með fjárframlagi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Nú þegar hefur Orkuveitan reitt fram 62,5 milljónir króna til sjóðsins, en höfuðstóll sjóðsins verður 75 milljónir króna, skv. samkomulagi Orkuveitunnar og sveitarfélagsins þar um, en samningurinn var gerður árið 2006. Aðeins er heimilt að greiða út vexti af höfuðstól í styrki, en að þessu sinni var ákveðið að veita fjárstyrki að upphæð þrjár milljónir króna til landbótarverkefna í sveitarfélaginu.

 

Tilgangur og  markmið  Uppgræðslusjóðs Ölfuss voru kynnt á almennum borgarafundi sem haldinn var í Ráðhúsi Þorlákshafnar í febrúar sl. og var fundurinn vel sóttur. Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum rann út 1. mars sl. Alls sóttu níu aðilar um styrk úr sjóðnum að þessu sinni vegna fjórtán verkefna. Allar umsóknir uppfylltu sett skilyrði og voru því metnar styrkhæfar. Verkefnin sem fengu vilyrði um styrk taka til fjögurra landsvæða innan marka sveitarfélagsins; Helgils/Kolviðarhóls, Kambsins við Þorlákshöfn, sandsins undir Selvogsheiði og Þorlákshafnar og nágrennis.

 

Eftirtaldir fengu vilyrði um styrk úr sjóðnum að þessu sinni: Fjallskilanefnd Ölfuss, Golfklúbbur Þorlákshafnar, Grunnskóli Þorlákshafnar, Landgræðsla ríkisins, Lionsklúbbur Þorlákshafnar,  Skógræktarfélag Ölfuss, Sveitarfélagið Ölfus, Orkuveita Reykjavíkur og Vélhjóladeild UMF Þórs.

 

Samkvæmt samþykktum sjóðsins er heimilt að veita styrki til verkefna, en þó þannig að fjárstyrkurinn nemi ekki hærri fjárhæð en sem nemur 2/3 af heildarkostnaði við verkefni. Ekki er heimilt að ráðstafa hærri fjárhæð en sem nemur 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til einstaks verkefnis.

 

Stjórn Uppgræðslusjóðs Ölfuss skipta eftirtaldir: Gunnþór K. Guðfinnsson, tilnefndur af Sveitarfélaginu Ölfusi, Helga  Ragna Pálsdóttir, tilnefnd af Sveitarfélaginu Ölfusi og Orkuveitu Reykjavíkur og Ólafur E. Jóhannsson, tilnefndur af Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Allar nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðu Sveitarfélagsins Ölfuss: http://www.olfus.is/.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?