Um ráðgefandi könnun er að ræða en ekki bindandi kosning um sameiningu sveitarfélaga
Eins og vel kunnugt er orðið verður haldin rafræn íbúakönnun í Sveitarfélaginu Ölfusi dagana 17. 26. mars nk. Þessi könnun verður eingöngu framkvæmd með rafrænum hætti og er í grunninn tilraunarverkefni Þjóðskrár Íslands með rafrænt kosningakerfi í samvinnu við Sveitarfélagið Ölfus. Bæjarstjórn hefur með formlegum hætti lagt til spurningar til þessa tilraunarverkefnis.
Spurningarnar sem lagðar eru fram
Spurning 1
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss ræði við annað sveitarfélag eða sveitarfélög um sameiningu?
? Hlynnt(ur) viðræðum
? Andvíg(ur) viðræðum
Spurning 2
Ef meirihluti íbúa er hlynntur viðræðum, við hvaða sveitarfélag ætti Ölfus helst að ræða? (Sé fyllt í valkosti má velja eitt eða fleiri sveitarfélög)
? Árborg
? Hveragerði
? Grindavík
? Annað sveitarfélag
Spurning 3
Hvaða tímasetningu telur þú heppilegasta/besta fyrir Hafnardaga?
? Sjómannadagshelgi
? Júní eftir sjómannadag
? Júlí
? Verslunarmannahelgi
? Ágúst eftir verslunarmannahelgi
? September til maí
Ráðgefandi könnun en ekki bindandi kosning um sameiningu sveitarfélaga
Til að koma í veg fyrir misskilning varðandi spurningu 1 þá eru íbúar ekki að kjósa um sameiningu sveitarfélaga heldur er bæjarstjórn að leita umboðs íbúa til mögulegra sameiningarviðræðna við önnur sveitarfélög. Ef bæjarstjórn fær umboð til slíkra viðræðna gætu þær viðræður leitt til kosninga um sameiningu Sveitarfélagsins Ölfuss við annað eða önnur sveitarfélög. Í aðdraganda slíkra kosninga færi fram ítarleg kynning á áhrifum slíkrar sameiningar, það sem í daglegu tali er oft nefnt kostir og gallar sameiningar.
Allir sem kjósa eiga kost á að svara öllum þremur spurningunum, sama hvert svar þeirra er við spurningu 1. Það er líka rétt að benda á að það er valkvætt hvort einstakri spurningu er svarað, þ.e. ef enginn kostur er valinn jafngildir það að skila auðu gagnvart þeirri spurningu og mun það skilmerkilega koma fram á yfirlitsblaði áður en svör eru staðfest endanlega.
Varðandi spurningu 2 þá er eingöngu hægt að velja úr þessum fjórum möguleikum sem upp eru listaðir, þ.e. einn eða fleiri, þess vegna alla eða þá að skila auðu. Sé kosturinn Annað sveitarfélag valinn gefur það til kynna, ef á annað borð verður meirihluti fyrir viðræðum, að viðkomandi vilji sjá viðræður við annað eða önnur sveitarfélög en þau þrjú sem nefnd eru. Eingöngu er hægt að merkja við valkostinn, þ.e. ekki er hægt að rita inn nafn sveitarfélags eða sveitarfélaga.
Spurning 3 snýr að tímasetningu bæjarhátíðarinnar Hafnardagar, sem haldin er í Þorlákshöfn ár hvert.
Það skal upplýst að hver og einn getur kosið eins oft og hann vill á því tímabili sem könnunin er opin en það er eingöngu síðasta kosning hans sem telur. Niðurstöður könnunarinnar í heild munu verða ráðgefandi fyrir bæjarstjórn við frekari umfjöllun um þau mál sem spurt er um, þ.e. ekki er um bindandi kosningu að ræða.
Íslykill eða rafræn skilríki eru skilyrði og 16 18 ára fá að kjósa
Öll umgjörð könnunarinnar er skv. kosningalögum, sveitarstjórnarlögum og reglugerð. Þeir einir eru á kjörskrá sem lögheimili höfðu í Sveitarfélaginu Ölfusi í lok mánudagsins 9. mars 2015. Ákveðið hefur verið og samþykkt af innanríkisráðuneytinu að kosningaaldur í þessari íbúakönnun verði færður niður í 16 ár. Miðað er við að viðkomandi verði orðinn 16 ára 27. mars eða næsta dag eftir að kosningu lýkur.
Íslykill eða rafræn skilríki eru forsenda þess að geta tekið þátt í könnuninni. Rétt er að hvetja þá sem ekki eiga Íslykil eða rafræn skilríki til að verða sér úti um slíkt hið fyrsta. Hægt er að nálgast slíkt á meðan á kosningu stendur en betra er þó að hafa tímann fyrir sér og vera ekki á síðustu stundu. Íslykill er gefinn út af Þjóðskrá Íslands og fást allar upplýsingar um hann á www.islykill.is. Rafræn skilríki fást í bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni, sjá www.skilriki.is. Hægt er að fá rafræn skilríki í farsíma og á snjallkort.
Hvernig er þetta svo gert?
Daginn áður en könnunin hefst verður settur hlekkur vegna hennar á heimasíðu Sveitarfélagsins Ölfuss, www.olfus.is. Opnað verður fyrir kosningu í könnuninni kl. 02:00 þriðjudaginn 17. mars og stendur hún yfir í 10 sólarhringa. Eins og áður segir er forsenda þess að geta kosið að viðkomandi sé með Íslykil eða rafræn skilríki. Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar er tiltölulega einföld en þegar gengið hefur verið frá atkvæðagreiðslu vegna allra þriggja spurninganna birtist heildaryfirlit sem staðfesta verður og þar með hefur viðkomandi lokið kosningunni. Snúist einhverjum hugur er einfalt að fara í gegnum sama ferilinn aftur.
Aðstoð á Bæjarbókasafni Sveitarfélagsins Ölfuss
Þeir sem ekki hafa aðgang að nettengdri tölvu geta komið við á Bæjarbókasafni Sveitarfélagsins Ölfuss í Þorlákshöfn og kosið þar. Starfsmenn bókasafnsins aðstoða eins og þeim er unnt en rétt er að taka fram að það er sama hvar kosið er, enginn kýs án þess að hafa orðið sér úti um Íslykil eða rafræn skilríki. Athugið að aðeins er aðgangur að bókasafninu á reglubundnum opnunartíma þess, þ.e. mán.-mið. kl. 11-18, fim. kl. 11-19 og fös. kl. 11-17. Ekki er opið um helgar.
Þjónustuver Þjóðskrár Íslands
Hjálp varðandi auðkenningu og tæknileg atriði verður hægt að fá í þjónustuveri Þjóðskrár Íslands í gegnum síma 515-5300.
Mikilvægt að taka þátt
Kosningaréttur er réttur fólks til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum og það er mikilvægt öllum lýðræðissamfélögum að þessi réttur sé nýttur og virtur. Íbúar eru því hvattir til að taka þátt í könnuninni og með því hafa áhrif á framtíðarþróun samfélagsins og eins möguleg áhrif á framtíðarfyrirkomulag kosninga á Íslandi.
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri