Þrátt fyrir mikið öskufalll á föstudeginum, létu íbúar Ölfuss engan bilbug á sér finnast og héldu dagskrá sem undirbúin hafði verið yfir helgina til streitu. Á bókasafninu var opnuð sýning á uppstoppuðum fuglum og eggjum Þorgríms Ármanns Þórgrímssonar en einnig er hann með páfagaukana sína í vist á bókasafninu af tilefni Hafnardaga.
Mikið fjölmenni tók þátt í skrautlegri og einkar litríkri skrúðgöngu um kvöldið. Skrúðgangan endaði í skrúðgarðinum þar sem hvert hverfi bauð upp á atriði. Það var mikið lagt í atriðin sem báru vitni um mikla sköpunargleði. Söngur, frumsandir textar, hljóðfæraleikur, flottir leiktilburðir og danssýning var á boðstólum. Hápunkturinn var síðan þegar Vinir Þorlákshafnar fluttu lagið Heimaslóð, sem einn vinanna, Rúnar Gunnarsson samdi af tilefni Hafnardaga þetta árið.