Erlendur Jónsson og Halla Kjartansdóttir færa menningarfulltrúa gamlar upptökur til varðveislu.
Halla Kjartansdóttir færði Byggðasafni Ölfuss gamlar upptökur til varðveislu en menningarnefnd hafði samþykkt að styrkja Höllu í því að færa efnið yfir í stafrænt form.
Á vordögum sótti Halla Kjartansdóttir um styrk til menningarnefndar til að færa upptökur sem tengjast atburðum og málefnum í Sveitarfélaginu af kasettum yfir á diska. Um er að ræða upptökur af tónleikum Söngfélags Þorlákshafnar og messum auk viðtals við Benedikt Thorarensen. Menningarnefnd ákvað að styrkja þetta góða verkefni, enda fengi Byggðasafn Ölfuss diskana í kjölfarið til varðveislu.
Í síðustu viku komu Halla og eiginmaður hennar, Erlendur Jónsson og færðu Byggðasafninu upptökurnar á sjö diskum sem Erlendur hafði merkt skilmerkilega.
Menningarnefnd Ölfuss þakkar Höllu og Erlendi kærlega fyrir þennan gjörning. Á myndinni sem fylgir sést hvar Halla og Erlendur færa Barböru Guðnadóttur, menningarfulltrúa kassa með upptökunum.