Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní kl. 15 verður afhjúpuð ný útisögusýning á Selvogsbraut, Lúðrasveitin í 40 ár.
Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnaði 40 ára afmæli í febrúar síðastliðnum. Lúðrasveitin hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi og sinnt fjölbreyttum verkefnum á þeim fjórum áratugum sem sveitin hefur verið starfandi. Sveitin er áhugamannalúðrasveit þar sem meðlimir á öllum aldri koma saman.
Lúðrasveitin hefur sinnt hefðbundnum verkefnum t.d. á 17. júní og á bæjarhátíðum en einnig hefur sveitin haldið jóla- og vortónleika í fjölda ára í samstarfi við landsfræga tónlistarmenn.
Ágústa Ragnarsdóttir er listrænn hönnuður útisögusýningarinnar. Ágústa er formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar og grafískur hönnuður að mennt og atvinnu sem og sögugrúskari. Því voru hæg heimatökin að gera sýningu sem þessa að veruleika.
„Þegar lúðrameðlimir fá flugu í höfuðið á hún það til að verða að gróskumiklu býflugnabúi" sagði Ágústa er hún var innt eftir hugmyndinni að útisögusýningu vegna 40 ára afmælis LÞ. Útkoman er skemmtileg, fróðleg og persónuleg sýning sem fer yfir feril sveitarinnar allt frá tilurð hennar til og með 40 ára afmælisveislunni sem var haldin eftirminnilega í apríl síðastliðnum.
Lúðrasveit Þorlákshafnar 2024 (myndir frá síðu LÞ á facebook)