Védís Huld Sigurðardóttir var valin íþróttamaður Ölfuss 2018 þann 30. desember síðastliðinn.
Védís Huld náði frábærum árangri á árinu bæði innan lands og utan. Hún var valin í landslið Íslands fyrir Norðurlandamót í hestaíþróttum sem haldið var í Svíþjóð. Þar náði Védís Huld þeim einstaka árangri að verða fimmfaldur Norðurlandameistari sem er einsdæmi. Hún keppti einnig í 2 hringvallagreinum og varð Norðurlandameistari í fimmgangi. Hún keppti í þremur skeiðgreinum, 250 m. skeiði, 100 m. skeiði og gæðingaskeiði og sigraði þær allar. Þar með var hún einnig Norðurlandameistari í samanlögðum greinum. Á mótinu verðlaunuðu dómarar mótsins tvo knapa sem sköruðu framúr á mótinu fyrir glæsilega reiðmennsku og var Védís Huld annar þessara knapa og hlaut Feather price verðlaun. Védís Huld er metnaðarfull íþróttakona sem er til mikillar fyrirmyndar innan vallar sem utan. Hún hefur stundað hestamennsku frá unga aldri og hefur ávallt verið í fremstu röð.
Tilnefndur fyrir golf.
Óskar Gíslason.
Óskar er og hefur verið einn af okkar öflugri kylfingum undanfarin ár. Óskar hefur lagt mikinn metnað í að starfa fyrir klúbbinn, efla og kynna golfíþróttina. Óskar er góð fyrirmynd í leik og starfi og Golfklúbbi Þorlákshafnar til sóma hvar sem hann hefur komið og verið. Óskar hefur árið 2018 eins og alltaf áður stundað golfið mikið og unnið til fjölda viðurkenninga á árinu.
Óskar sigraði á meistaramóti Golfklúbbs Þorlákshafnar árið 2018 og er klúbbmeistari karla það ár.
Tilnefndur fyrir knattspyrnu.
Daníel Frans Valdimarsson.
Daniel Frans Valdimarsson er uppalinn Ægisleikmaður og hefur æft knattspyrnu hjá Ægi frá því hann hóf knattspyrnuiðkun í 8. flokki. Daniel hefur staðið sig mjög vel á þessu ári. Hann var byrjunarliðsmaður í mjög sterku A liði Ægir/Hamar/Selfoss í sínum aldursflokki. Daniel er mikið efni, duglegur að æfa og samviskusamur. Hann kom við sögu hjá Mfl. karla og stóð sig með mikilli prýði þar. Hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Tilnefnd fyrir hestaíþróttir.
Katrín Eva Grétarsdóttir
Katrín er búin að standa sig mjög vel á árinu. Hún er mjög metnaðfull og leggur sig 100 % fram í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.
Katrín komst inn á Landsmót með 2 hesta, annan í A flokk fullorðinna og hinn í ungmennaflokk. Hún var í úrslitum á Reykjavíkurmeistaramóti, Íslandsmóti, Suðurlandsmóti, Gæðingakeppni Sleipnis á Selfossi, og hún vann A flokk 2 á Metamóti hjá Spretti.
Tilnefndur fyrir körfuknattleik.
Halldór Garðar Hermannsson.
Halldór er fæddur 1997 og er bakvörður með meistaraflokki Þórs í Þorlákshöfn og hefur átt glæsilegt körfuboltaár. Hann hefur leikið með meistaraflokki frá unga aldri en Halldór hefur verið sterkur leikmaður í yngri flokkum Þórs og í unglingalandsliðum KKÍ. Hann er lykilleikmaður í meistaraflokki Þórs og hefur leikið vel í vörn og sókn liðsins. Vorið 2017 setti hann að meðaltali 17.65 stig og 19,41 framlagspunkta og 9,41 frákast. Í vetur hefur hann verið með að meðaltali 13,9 stig, 4,5 fráköst, 3,5 stoðsendingar og 12,9 framlagspunkta í Íslandsmótinu. Halldór var valinn leikmaður 8. umferðar í Dominosdeild í nóvember en hann átti frábæran leik. Hann skoraði 27 stig, með 53 % nýtingu í skotum og 29 framlagspunkta. Halldór er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur en hann hefur verið í öllum yngri landsliðum KKÍ og leikið á Norðurlandamótum og Evrópumótum.
Tilnefndur fyrir frjálsar íþróttir
Róbert Khorchai Angeluson
Róbert stóð sig afar vel á árinu 2018. Róbert sérhæfði sig í spjótkasti á árinu og uppskar afar vel. Hann náði frábæru kasti á Gautaborgarleikunum þar kastaði hann 53,88m þar bætti hann sinn persónulega árangur um 3m og fleytti þetta kast honum í 5. sæti á Gautarborgarleikunum. Þetta kast var jafnframt lengsta kast 19 ára Íslendings á árinu 2018 og vann Róbert sér þá þáttökurétt á NM 19 ára sem haldið var í Danmörku en Íslendingar og Danir senda sameiginlegt lið til þáttöku. Var Róbert með bestan árangur þessar tveggja þjóða og varð því fyrir valinu í landsliðið fyrir NM. Róbert kastaði 48,90m og hafnaði í 8 sæti sem er stórkoslegur árangur hjá honum.
Róbert sýndi einnig hversu öflugur og fjölhæfur hann er þegar hann gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í þrístökki pilta 18-19 ára með stökk uppá 12,66m.
Róbert fjölhæfur frjálsíþróttamaðaur. Hann er flott fyrirmynd sem leggur sig alltaf 100% fram og er fljótur að tileinka sér færni og hæfni í hverri grein, hann er gríðalega duglegur og samviskusamur og uppsker eftir því.
Tilnefnd fyrir akstursíþróttir
Gyða Dögg Heiðarsdóttir
Gyða Dögg Heiðarsdóttir var Íslandsmeistari í opnum kvennaflokk í motocrossi 2018 og vann hún 8 mót af 10. Þetta er 3 skiptið á ferlinum sem hún vinnur þennan flokk. Einnig tók Gyða Dögg þátt í fyrsta sinn í Íslandsmeistaramótinu í enduro og vann þar þrjár af fjórum umferðum og endaði þar með sem Íslandsmeistari í kvennaflokki í enduro. Á lokahófi MSÍ 2018 var hún svo valin akstursíþróttakona ársins.
Tilefnd fyrir fimleika.
Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir
Sirrý hefur æft fimleika hjá fimleikadeild Þórs frá því hún var 5 ára. Hún hefur mikinn metnað, mætir á allar æfingar og leggur sig alla fram á æfingum. Hún er afar jákvæð og dugleg á æfingunum og er alltaf tilbúin til að leysa þau verkefni sem henni eru sett. Hún hugsar vel um alla liðsfélaga sína og er fyrirliði stúlknaliðsins.
Viðurkenningar fyrir Íslandsmeistaratitil, bikarmeistaratitil eða landsliðssæti.
Leikmaður í U 18 ára landslið karla í körfuknattleik
Styrmir Þrastarson
Leikmaður í U 15 ára landslið karla í körfuknattleik
Bikarmeistari í 9. flokki.
Ísak Júlíus Perdue
Íslandsmeistari 13 ára pilta í kúluvarpi innanhúss.
Sölvi Örn Heiðarsdóttir
Íslandsmeistari 16 ára pilta í spjótkasti
Viktor Karl Halldórsson
Íslandsmeistari í tölti og samanlögðum greinum í unglingaflokki.
Glódís Rún Sigurðardóttir
Við óskum Védísi sem og öllum öðrum sem voru tilnefndir og fengu viðurkenningu innilega til hamingju með árangurinn.