Sveitarfélaginu er óheimilt að niðurgreiða sorpmeðhöndlun.
Eins og öll önnur sveitarfélög á Íslandi hefur Sveitarfélagið Ölfus nú tekið upp greiðsluskyldu á sorpmóttökustöð sveitarfélagsins. Slíkt er nú orðin lagaleg skylda þar sem sveitarfélögum er gert skv. 2.mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs að innheimta samkvæmt svokallaðri „Borgað þegar hent er“ aðferð. Sveitarfélögum er þannig gert lagalega skylt að koma því þannig fyrir að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila. Á þetta bæði við um sorphirðu við heimili og meðhöndlun úrgangs á gámasvæði
1. Hvers vegna?
Innleidd hafa verið ný lög í úrgangsmálum sem tóku gildi 1.janúar 2023 þegar breytingar voru gerðar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald
Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi). | Þingtíðindi | Alþingi
55/2003: Lög um meðhöndlun úrgangs | Lög | Alþingi
Lagabreytingarnar hafa verið kallaðar einu nafni hringrásarlögin en markmið laganna snýst þó aðallega um að draga úr myndun úrgangs og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags hér á landi. Sjá nánar hér:
Ný lög í úrgangsmálum taka gildi 2023 – hvað mun breytast? | Úrgangur.is | Umhverfisstofnun
2. Hvað þýðir þetta?
Þetta þýðir að heildargjöld á notendur vegna sorpsmeðhöndlunar verða að mæta heildarkostnaði við sorpmeðhöndlun. Niðurgreiðslur er óheimilar. Eigandi sorpsins þarf sjálfur að greiða allan kostnað við söfnun og förgun sorpsins. Gjaldtaka hefur verið tekin upp á gámasvæðinu og samsetning sorpgjalda á heimili hefur breyst. Heitin „sorphirða“ og „sorpeyðing“ í gjaldskrám vegna meðhöndlunar úrgangs detta út. Alla jafna hefur gjaldi sem áður bar heitið „sorphirða“ verið brotið upp í breytileg gjöld eftir stærð og fjölda íláta, tegund úrgangs og losunartíðni. Gjald sem bar áður heitið „sorpeyðing“ hefur fengið heitið „Rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og annar fastur kostnaður“. Fast gjald á heimili verður kr. 18.000 og kr. 27.000 á fasteignir fyrirtækja.
3. Er ekki hægt að veita afslætti til dæmis vegna flugeldamóttöku?
Jú það er hægt en sá afsláttur kemur þá niður á þeim sem ekki þurfa að farga flugeldaúrgangi. Heildargjöld þurfa að mæta heildarkostnaði. Þar sem óheimilt er að niðurgreiða sorpmeðhöndlun þá er afsláttur fyrir einn kostnaður annars. Í ákveðnum tilvikum er farin sú leið að færa ákveðinn kostnað yfir á almenning, til dæmis með grenndargáma fyrir flugelda. Er það gert til að koma í veg fyrir að flugeldar séu skyldir eftir á almannafæri. Það verður gert í hér í Þorlákshöfn.
Því miður urðu mistök til þess að einhverjir íbúar voru rukkaðir þegar þeir komu með flugeldaúrgang á móttökustöð. Sá kostnaður verður endurgreiddur. Hægt er að hafa samband við þjónustuver (eva@olfus.is) vegna þessa. Verið er að setja gám upp utan girðingar við sorpmóttökusvæðið þar sem hægt er að losa sig við flugeldaúrgang án beinnar gjaldtöku og eru íbúar hvattir til að nota hann.
4. Hver ákvað þetta?
Þetta var ákveðið af Alþingi og öll sveitarfélög hér á landi þurfa að lúta þessu. Ferill málsins er langur og fyrsta stóra skrefið var tekið árið 1992 með Ríó-yfirlýsingunni. Ísland samþykkti regluna sem hluta af skuldbindingum sínum í alþjóðlegu samstarfi, þar á meðal í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið (EES) og umhverfissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lög um umhverfisábyrgð voru samþykkt á Alþingi Íslendinda árið 2012. Þar var greiðslureglan innleidd í íslenskan rétt. Skrefið var svo tekið árið 2023 þegar ný lög voru innleidd að fullu og sveitarfélögum er því ekki lengur heimilt að niðurgreiða sorpmeðhöndlun. Félög eins og Landvernd og fl. hafa kallað mjög eftir því að slík skref væru tekin.
5. Hvers vegna eru tunnur ekki ókeypis?
Sveitarfélaginu ber samkvæmt lögum að innheimta sorphirðugjöld sem næst raunkostnaði vegna söfnunar á heimilisúrgangi og rekstri grenndar- og endurvinnslustöðva. Tunnur eru hluti af kostnaði sem hver og einn greiðir. Þær tunnur sem núna eru við heimili í sveitarfélaginu verða hér eftir eignir fasteignaeigenda. Kostnaður við nýjar tunnur (endurnýjun, viðbætur og nýbyggingar) falla á notendur sjálfa.
6. Hvað er hægt að gera til að draga úr kostnaði?
Lang áhrifaríkast er að flokka meira og henda minna. Sveitarfélagið fær greitt úr Úrvinnslusjóði vegna flokkunar á pappa og plasti sem kemur frá heimilum sveitarfélagsins. Endurgreiðslan er alfarið háð því hversu duglegir íbúar eru að flokka. Á árinu 2024 stefnir í að sveitarfélagið fái greiddar um 18 milljónir vegna flokkunar á pappa og plasti sem búið er að reikna til lækkunar á sorphirðugjöldum heimila.
7. Kostar að henda öllu sorpi á gámasvæðinu?
NEI, áfram er gjaldfrjálst fyrir einstaklinga að henda öllum flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslugjald s.s. plastumbúðum, pappír, hjólbörðum, raftækjum, málmum og textíl. Einnig verða settar upp grenndarstöðvar þar sem íbúar geta losað sig við gjaldfrjálsan úrgang.
8. Hvar er hægt að fá nánari upplýsingar?
Starfsmenn sveitarfélagsins eru allir af vilja gerðir að greiða leið fólks hvað þessa breytingu varðar. Spurningum ber að beina til Davíðs Halldórssonar, umhverfisstjóra (david@olfus.is) eða þjónustuvers sveitarfélagsins (eva@olfus.is).
Nánari upplýsingar er meðal annars hægt að finna hér Breytingar á gjaldtöku á gámasvæði Ölfuss | Sveitarfélagið Ölfus og hér Forsíða | Úrgangur.is | Umhverfisstofnun.