Vígsluafmæli Þorlákskirkju

kirkja3
kirkja3

Efnt verður til hátíðarmessu í Þorlákskirkju, sunnudaginn 11. október af tilefni þess að 30 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar. Biskup Íslands,  frú Agnes Sigurðardóttir prédikar í messunni

Efnt verður til hátíðarmessu í Þorlákskirkju, sunnudaginn 11. október af tilefni þess að 30 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar. Biskup Íslands,  frú Agnes Sigurðardóttir prédikar í messunni sem hefst klukkan 14:00.

Sóknarprestur og nýráðinn djákni Guðmundur Brynjólfsson þjóna fyrir altari. 
Kór Þorlákskirkju syngur undir stjórn Jörg Sondermanns sem spilar sína kveðjumessu. 

Gestum er boðið í hátíðarkaffi í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss eftir messuna, þar sem Sigurður Jónsson lýsir byggingu kirkjunnar. 

Þorlákskirkja í Þorlákshöfn var vígð af biskupi Íslands, hr. Pétri Sigurgeirssyni, sunnudaginn 28. júlí 1985.  Tíu árum áður hafði Árnessýsla gefið 18.000 fermetra lands undir kirkjugarð og á sama tíma var ákveðið að byggja kirkju í Þorlákshöfn.

Þorlákskirkja var byggð af miklum eldmóði sjálfboðaliða. Í ávarpi sem Gunnar Markússon, formaður sóknarnefndar flutti við vígslu kirkjunnar sagði hann ómögulegt að gera skrá yfir alla þá sem lögðu orku huga og handa til þess að lyfta þessu grettistaki, því þá þyrfti að "...prenta íbúaskrá Þorlákshafnar síðustu 6 árin svo til óbreytta... og ekki aðeins íbúaskrána, heldur og skrá yfir nær öll félög hér á staðnum og gildir þá einu hvort þau eru stofnuð til þess að veiða og verka fisk eða starfa að líknar- og menningarmálum. Allflest eiga þau sinn stein í þessari byggingu og sum stóra. Vér yrðum einnig að birta langa lista yfir vini vora í öðrum byggðarlögum, bæði einstaklinga og félög."

Kirkjan ber nafn heilags Þorláks, sama nafn og fyrsta kirkjan í Þorlákshöfn bar. Þorlákskirkja hin fyrri stóð í um það bil 250 ár, en var að lokum rifin um 1770. Messuhökull þeirrar kirkju hefur varðveist og var varðveittur lengi vel í Byggðasafni Árnessýslu, sem þá var á Selfossi. Byggðasafnið afhenti hökulinn til nýrrar kirkju í Þorlákshöfn við vígslu hennar.

Núverandi kirkja er teiknuð af Jörundi Pálssyni arkitekt og var Sverrir Sigurjónsson byggingarmeistari kirkjunnar. Framkvæmdastjóri kirkjubyggingar var Ingimundur Guðjónsson, formannður sóknarnefndar og söngstjóri.  Hann var að mörgu leiti driffjöðrin í byggingu kirkjunnar.  Á lokaæfingu Söngfélags Þorlákshafnar fyrir kirkjukvöld, þar sem halda átti upp á að kirkjan var tilbúin undir tréverk, hné Ingimundur niður og lést.  Í minningu söngfélaga stendur upp úr hvar Ingimundur tekur stoltur og glaður á móti þeim við kirkjudyrnar fyrir þessa síðustu æfingu og segir við hvern og einn "verið hjartanlega velkomin í kirkjuna okkar".

Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?